föstudagur, apríl 30, 2004
Á Kyūshū þurfti ég að reyna það að verða matvinnungur á grænmetisakrinum. Ég var fenginn til að ryðja burt steinum sem voru í jarðveginum svo auðveldara yrði að plægja akurinn fyrir sáningu. Því næst fórum við í heimsókn á heimili í nágrenninu og loks út að borða í boði Kuhara.
fimmtudagur, apríl 29, 2004
í gegnum fjöll og fyrnindi
Shinkansen - miklahraðlestin er æðisgengin. Japanir vita greinilega að stysta leiðin milli tveggja staða liggur eftir beinni línu. Maður flaug bókstaflega í gegnum holt og hæðir. Ég sökkti mér þó ofan í bók en gaf mér líka tíma til að dáðst af Fuji fjallinu. Deginum var eytt í Fukuoka með Saho og Sayano.
miðvikudagur, apríl 28, 2004
bókasöfnun
Náði loksins loksins í tól úr viðgerð sem hefur verið í viðgerð síðan ég kom og var í viðgerð í tæpan mánuð áður en ég fór. Ég ætti því sennilegast að fara að sjá eitthvað úr þessu. Ég ætla reyndar að taka mér gott helgarfrí eins og flest allir gera hér um slóðir. Sem byrjar á morgun ef ég man rétt. Eitt markvert gerðist í dag. Ég keypti mér kennslu bók í Japönsku. þá fyrstu sinnar tegundar í mínu fátæklega bókasafni.
þriðjudagur, apríl 27, 2004
"gamla konu langar í ferðalag"
Það var Halldór Laxness sem ritaði þetta fyrir nokkrum árum síðan og það án þess að nota gæsalappir. Ég nota bara mínar lappir til að koma mér á milli staða eða járnbrautastöðva. Fór og kvaddi Off, úr námssveit próferssors Tanaka, en hann fer heim í fyrramálið.
mánudagur, apríl 26, 2004
ekki leiðinlegt
Tók mig saman í andlitinu og gerðist alvöru útlendingur í Tókýó. Fór í útsýnisferð. Hring snérist með Yamanote-sen, þetta tók rétt rúman klukku tíma og ég náði að setjast niður síðustu 4 mínúturnar. Þetta var bara fín ferð. Nú veit ég hvernig maður getur komist á milli staða af eigin raun.
sunnudagur, apríl 25, 2004
Izakaya
Slæptist fram eftir degi, við vorum tveir sem fórum út að borða og talan sem kom upp á skjáinn var 181.340. Yen. Mér fannst það ekki vera alveg sama fjárhæð og tilgreind var á reikningnum sem ég hélt á og benti á þá tölu rétt um, 5.000 Yen, Afgreiðsludaman roðnaði og reyndi sennilega að biðja mig afsökunar, ítrekað eftir að hafa fórnað höndum. Það hlýtur að hafa verið mikið fjör hjá þeim sem átu fyrir 180þúsund Yen. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort sú máltíð hafi mett þann hóp fólks.
Shibuya
Fór á Aðalfund félags Íslendinga í Japan í Sendiráðinu sem far góður Bjarni var kjörinn gjaldkeri og Arnar var kjörinn varaformaður. Ýmis brýn mál voru rædd og voru menn almennt á því að skattlegja skyldi Frónverjana sem var og gert. Það var sannkölluð bylting í félaginu og allir voru sáttir að lokum. Smávegis slæpingur með Stínu og Tue, Gullu, Halla og Arnari seinnipartinn og loks kóreanskur Veitingastaður með vistarbúum í Komaba og hreint út sagt frábært kvöld. Rakst á þennan dúett fyrir utan lestarstöðina. Menn meiga "glæða" síðuna að vild. Veffangið breytist ekkert úr þessu, þótt Netföngin séu mörg. Ég get ekki skrifað neitt að ráði í líkingu við þetta enda var ég sammála Haraldi varðandi rafrænar kosningar, spennan á kosningavökunum er góð. Blessuð sé minning Haraldar. Ég las minningargrein Vefþjóðviljans um Harald, hún er vel skrifuð.
föstudagur, apríl 23, 2004
kveðja
Þar kom að því að eitthvað léti undan. Reyndar var það þó ekkert í líkingu við Mexíkannska maraþonið hérna um árið. Maður harkar svona nokkuð af sér. Efir hreingerninguna í gær kíkti ég á þá kaffihússtemmningu sem íbúar vistarinnar sköpuðu í setustofu stærstu byggingarinnar, notaleg kvöldstund. Var helst til vansvefta í morgun en skildi þó ekkert mikið minna en samnemendur mínir í kennaranum. Í kvöld verður Off kvaddur, því hann fer til Tælands í næstu viku.
fimmtudagur, apríl 22, 2004
sumarhreingerning
Til að fagna sumrinu á sómasamlegan hátt þótti mér vissara að þrífa herbergið. Þeir segja að það sé farið að hlýna hérna bara núna í vikunni, en það er eitthvað sem ég hef ekki tekið eftir fyrir mér er bara heitt hérna. Þó ekki eins heitt og það var hinumegin við Kyrrahafið.
Er rokinn á Kaffihús í næstu byggingu.
Er rokinn á Kaffihús í næstu byggingu.
miðvikudagur, apríl 21, 2004
Leiðsögn
Nú þegar ég mannaði mig upp í að spyrja til vegar, svo ég gæti farið að fjárfesta í bókum um japönsku. Þá þóttist ég góður með mig með upp á skrifað skothelt dæmi um það hvernig maður spyr til vegar. Ég vildi meina að ég hafi spurt um bókabúð og fylgdi eftir fremsta megni leiðbeiningum vegfarenda. Ég endaði á veitingahúsi. Reyndar var bókabúðin að vísu ekki langt undan, hinumegin við götuna ef ég man rétt.
þriðjudagur, apríl 20, 2004
þvælingur
Dagurinn gekk fremur stórslysalaust fyrir sig, reyndi að læra japönsku og ráfaði svo um nágrennið og fann annan stað sem sérhæfir sig í framreiðslu hvalkjöts. Þar lenti ég í samræðum við sigldan mann sem hefur komið til Hammerfest. Sagði hann hvalkjöt vera í mestu uppáhaldi hjá sér. Staðurinn bar nafn fiðrildis og er enn nær bústað mínum en sá sem ég fór á í gær.
mánudagur, apríl 19, 2004
Hvalur hf.
Á leiðinni heim úr skólanum kíkti ég á sérstæðan veitingastað hvar einungis var boðið upp á hvalkjöt. í dyragættinni mættu mér tveir alvöruþrungnir þjónar og tilkynntu mér að einungis hvalkjöt stæði gestum til boða. Ég lét það ekki aftra mér heldur gæddi mér á góðum bita. Eitthvað held ég að Kristján Loftsson þurfi að taka sig á í markaðsmálunum því ég hef séð meiri traffík í Essóskálanum á Hólmavík.
sunnudagur, apríl 18, 2004
verzlun
Vaknaði tiltölulega snemma og fór í slagtogi með William, áströlskum lækni þeim sama og sýndi mér japanska veitingastaðinn í gær, í verslunarleiðangur. Fann meðal annars penna sem er minni en vísi fingur svo maður noti samanburðarfræði að hætti Jónasar Helgasonar. Svo er stöðupróf í japöksunni í fyrramálið. Fróðlegt verður að sjá hvað kemur út úr því. Með Japönsku og yfirferðar hraða og námsefni virðist einhver veira vera í kerfinu við flokkun á Íslendingum sbr. reynslu hans Bjarna.
laugardagur, apríl 17, 2004
fínt
Góður matur, gott kvöld, gaman. Fékk góðar fréttir að heiman. Verið er að ganga frá kaupsamningi á Daníel. Já landinn getur ekki án hans verið lengur svo að hann verður keyptur til landsins (Ís) sem er mjög gott mál. gott að einhver stendur sig. Maður verður þá að taka sig á í japönsku náminu svo maður geti borið sig saman við þennan líka "meistara" kokk.
endurfundur
Japanskan eykst og eykst og flækist jafnvel líka. Fyrsta stöðuprófið verður lagt fyrir á mánudaginn. Þá getur maður reynt að æfa sig um helgina. Fór á fund gamals vinar sem ég ef ekki séð í nokkur ár, vinar frá Danmerkur dögunum. Það var gaman. Ýmislegt bar þar á góma eins og til að mynda munurinn á því að sofa í lest eða um borð í ferju. Að gefnu tilefni verð ég að játa það að hér eru hávaxnari menn en ég þó þó hlutfallslega séu þeir færri en heima, í það minnsta samkvæmt fyrstu tölum úr Meguro-ku.
fimmtudagur, apríl 15, 2004
Teflon
Það hlaut að koma að því að maður stæði á gati hér austur frá. Fróðlegt að sitja í 15 manna bekk þar sem tungumálið sem kennt og tungumálið sem notað var til skýringa var hvorugt móðurmál nokkurs nemanda. Meðal námsefnis dagsins vöru tölurnar, almenn kurteisi -fyrir byrjendur-, sjálfsbjargarviðleitni í verslunum og á veitingahúsum og þegar þar var komið sögu glutraði ég þræðinum úr höndum mér. Það kemur vonandi ekki að sök, ég finn hann vonandi fljótt aftur. Fór því næst á sýningu sem var áhugaverð en ég staulaðist um sem ég væri blindur því ég bar tæpast skyn á nokkurn hlut á sýningunni utan örfárra fyrirtækjaheita.
miðvikudagur, apríl 14, 2004
lóðrétt regn
Hann hékk þurr fram yfir hádegi. En þá sat ég opnunarhátíð japönsku kennslunnar. Þegar ég kom heim úr skólanum byrjaði að rigna. Svo gekk ég frá samgöngumálunum, kominn með lestarpassa eftir að ég teiknaði heimilisfangið á þar tilgert eyðublað. Svei mér þá ef ég er ekki farinn að læra á símann. Mér hefur verið svarað og ég hef svarað þannig að það er allt á réttri leið. Ég var á tímabili að velta því fyrir mér að kaupa mér yfirhöfn eða regnhlíf en það á eftir að skýrast. Svaraði spurningu í könnun sem snérist um það hvort ég hefði farið með flugi eða með Norrænu á Ólafsvöku.
þriðjudagur, apríl 13, 2004
Tjóir ekki að tryggja eftir á
Fór sjálfviljugur og gekk frá nemendaskráningu í TIT og reyndi að tryggja mig starfsfólkið á þeirri skrifstofu var vingjarnlegt og þakkaði mér fyrir - að ég held. Fór þvínæst að sjávarsíðunni til Tanaka þar var mér vel tekið sem fyrridaginn. Fékk að láni vasaorðavél sem ég verð að lesa eins og Biblíuna. Síðasta kennslustund sem ég sat var minnir mig í spænsku, næsta verður í japönsku.
Norðurlandasamráð
Fann engan almennilegan skóara en þvældist um svæðið fram og til baka. Fann þó nokkra spennandi matsölustaði. Kvöldið var hreint út sagt magnað í veislu sem haldin var til heiðurs okkur nýkomnu íbúum Komaba. Það eru um 300 námsmenn búsettir hér frá 70 löndum. Að veislunni lokinni efndi maður til Rómansk-amerískrar uppákomu hvar Norræna samstarfið blómstraði, tveir Finnar og tveir Norðmenn annar sagðist vera kunningi Bjarna en sá -Norðmaðurinn- býr ekki hér.
sunnudagur, apríl 11, 2004
"allt að gerast"
Endasendist nærri því milli austur og vestur hluta Tókyo í gær ferðalag sem spannaði allt frá Chiba til Stínu. Ég átti fullt í fangi með að grípa gómsæta réttina af færibandinu. Mér skildist að hart nær fimmtungur Íslendinganna hér hafi verið samankomnir þarna. Það er spurning hvað margir Færeyingar eru í Tokyo. Sem minnir mig á það að Tælendingurinn Off sem vinnur á rannsóknastofu prófessors Tanaka var miklu ánægðari að hitta mig þegar hann vissi hve "margir " Íslendingar væru. Eftir stórskemmtilega kvöldstund hjá Stínu og Tue, héldu ofurhugarnir út í nóttina með næst síðustu lest. Þar fékk maður smjörþefinn af því hvað maður getur reynt vilji maður. Afar sérstakt. Svo er maður nú orðinn gjaldgengur í Sjúkrasamlaginu hérna og þá er bara næst að sauma fyrir kjaftinn á málglöðum skónum mínum.
laugardagur, apríl 10, 2004
afslöppun
Eftir fróðlegan fund með prófessor Tanaka þar sem hann kynnti mig m.a. fyrir nemunum Masters og Doktors sem stunda rannsóknir á rannsóknastofu hans og við spjölluðum í rólegheitum um framhaldið, héldum við öll út að borða. Við fyrstu sýn virtist rannsóknastofan rúmgóð og vel tækjum búin. Prófessor Tanaka býður upp á afslappað umhverfi. Svei mér þá ef reynslan úr roðinu eigi ekki eftir að nýtast mér. Við ræddum nefnilega nokkuð um draumsýnina góðu.
Í dag er dagskráin lausari við formsatriði, páskakvöldverður hjá Kristínu og Tue.
Í dag er dagskráin lausari við formsatriði, páskakvöldverður hjá Kristínu og Tue.
föstudagur, apríl 09, 2004
fimmtudagur, apríl 08, 2004
samband?
Ég er hræddur um að ég sé að verða háður yfirfullum lestum, fer jafnvel lengir leiðir en nauðsynlegt er, bara vegna þess að nýjabrumið er svo mikið. Þó stóð ég ekki allan daginn í lest. Heldur fórnaði ég staðfestingu á því að ég væri útlendingur búsettur á þessum nemenda garði fyrir þá tálsýn að komast í almennilegt samband við umheiminn. greiddi rétt um 69 aura út í hönd fyrir fjarskipta tólið sem ég veit enn ekki hvernig virkar. Svo bauð Bjarni mig velkominn, það stefnir í svaka samkomu á laugardaginn. Bætti við fleiri munum í búið, en það er ekki búsældarlegt enn.
miðvikudagur, apríl 07, 2004
konnichi ha
Fór í annað japönsku prófið á ferlinum og var settur í færari hóp en mig óraði fyrir að ég kæmist jafn snöggt inn í. Galdurinn var a ég vissi hvernig menn bjóða mönnum gott kvöld. Hitti Harald, þann sem hringsólaði með mér um Frankfurt, aftur og Arnar. Er allur að færa mig upp á skaftið í raftækjunum búinn að kaupa viðeigandi kló.
þriðjudagur, apríl 06, 2004
bras
Brasað meira
Byrjaði daginn á að skrá mig sem útlending, það gekk vonum framar. sumir væru eflaust rórri ef símafyrirkomulagið væri jafn auðskiljanlegt. Keypti smálega muni í búið.
Byrjaði daginn á að skrá mig sem útlending, það gekk vonum framar. sumir væru eflaust rórri ef símafyrirkomulagið væri jafn auðskiljanlegt. Keypti smálega muni í búið.
mánudagur, apríl 05, 2004
Brölt
Bröltið byrjað
Eftir hangs og hringsól í Frankfurt var haldið áleiðis til Höfuðborgar heimsins Tokyo. Er þegar í stað kominn inn á fínt herbergi í góðu hverfi. Fjörið byrjar svo fyrir alvöru í fyrramálið.
Eftir hangs og hringsól í Frankfurt var haldið áleiðis til Höfuðborgar heimsins Tokyo. Er þegar í stað kominn inn á fínt herbergi í góðu hverfi. Fjörið byrjar svo fyrir alvöru í fyrramálið.