Hvað er að frétta??

Ég fór að heiman 1. apríl. Það kemur síðar í ljós hvort einhver eigi eftir að hlaupa apríl þess vegna. Fyrsta skrefið í þeim flutningunum var að stökkva upp í hálftóma flugvél frá Akureyri til Reykjavíkur. Það er ekkert skrítið að fátt fólk hafi verið í vélinni, enda líður fólki almennt vel á Akureyri og vill helst ekki fara þaðan. Ég staldraði við um stutta stund í Reykjavík og gekk nærri gjaldeyrisforða tveggja útibúa Landsbankans hvað varðar þá mynt sem mér er nú kærust. Þá mynt sem brenglað hefur allan minn hugarreikning eftir þessa stuttu viðkynningu, og var hann þó slakur fyrir.

Sé barnið læst, vill fólk gjarnan að það læri að draga til stafs þegar þar er komið má reyna að sýna því fram á ágóða þess að leggja saman og seinna að draga frá. Hafi maður sagt A þá verður maður víst líka að segja B. Hagfræðin, kennir hún ekki að skynsamt fólk lifi á jaðrinum, að vísu hvorki á jaðri þess gerlega né þess byggilega heldur á framleiðslumöguleikajaðrinum. Þegar maður hefur lokið háskólanámi er við hæfi að maður hugi að framhaldsnámi. Þá er gott að fara að ráðum þeirra sem eldri eru og hafa hvorttveggja reynslu og þekkingu til að miðla upplýsingum um menntun og menntunar möguleika. Með þá möguleika og þau tækifæri sem Íslendingar hafa nú úr að spila er í raun úr vöndu að ráða fyrir æsku landsins að setja sér stefnu. Hvort sem að útilokunar aðferðin er notuð eður ei má ljóst vera að það sem er áhugaverðast er best. Fyrir mann af sviði sjávarútvegs er gott að leita þangað sem neysla sjávarafurða er mikil, þar gæti maður vænst þess að eitthvað nýtt og áhugavert geti rekið á fjörur manns. Eftir að hafa verið á milli vita um nokkra hríð, þar sem fyrirsjáanleg breyting á bústað o.þ.h. hafði verði manni nokkuð hugleikin. Þá var best að leggja það sem á undan var gengið til hliðar og demba sér út í það óþekkta. Taka því sem að höndum ber.
 
Í flugstöð Leifs Eiríkssonar var mér úthlutað sæti við hlið þess sem var á sama ferðalagi og ég. Já við erum tveir sem lögðum upp í byrjun apríl í bjarmalandsför á móts við rísandi sól. Það var þó betra en þegar ég fór til Mexíkó um árið því þá vissi ég ekkert um ferðafélagann yfir Atlantshafið, nú vissi ég þó að nafn og áfanga stað á þeim sem ég ferðaðist með. Í þeirri þéttsetnu flugvél sem flutti okkur til meginlandsins gátum við reynt að stilla saman strengi okkar fyrir komandi ævintýri. Nokkuð sem við gátum ekki gert í þeirri velfullu flugvél sem flutti okkur loks á áfangastað.

Þegar saman koma japönsk skipulagning, sem stýrt er með því hugarfari að allt skuli vera til reiðu í tæka tíð, og þýsk reglufesta( flugi aflýst kl. 13:00), er íslensk stundvísi (áætlun 12:55, staðfest koma að flugstöð 13:03) léleg tilraun til þess að fá einhverju áorkað. Töf, stutt eða löng (brottför kl.21:45 í stað 13:45) á þýskum flugvelli skiptir litlu sem engu máli þegar á hólmann Honsu er komið. Tilgangurinn helgar meðalið.
Áfangastaðnum er náð heilu og höldnu. Tókýó og nágrenni er hreint út sagt ólýsanleg. Leyfi ég mér að fullyrða að ofhleðsla skynfæranna keyri hæglega um þverbak. Hvort sem talað er um bragð, lykt, heyrn eða sjón. Þar sem maður er rétt byrjaður að snæða sinn veg í gegnum stórborgina hefur ýmislegt nýtt fyrir augun borið.

Mannmergðin er einstök. Hvert sem litið er má sjá fólk, ef ekki fólk, þá mannanna verk, vegsummerki um fólk. Hversdagslegt líf hefur sinn gang hér eins og um stórt klukkuverk væri að ræða. Lestir ferja fólk milli staða kvölds og morgna. Oftar en ekki er þröng á þingi í slíkum ferðum. Þrátt fyrir mannhafið ríkir því sem næst japönsk ró í sérhverjum lestarvagni. Þeim heimamönnum sem vanir eru ferðamátanum gefst færi á að stunda hugleiðslu. Þeir sem eru sjóaðir í svona ferðalögum víla ekki fyrir sér að fá sér kríu standandi, stuðningslaust, innan um hugleiðandi samferðamenn. Ólíkt því sem spáð var hef ég ekki orðið var við það að einn einast heimamaður hafi þurft frá að hverfa vegna þess að ég tæki pláss frá 4 til 6 Japönum í lestakerfi höfuðborgarinnar. Sennilegt er að nokkrar lestarstöðvar hér eigi auðvelt með að kaffæra Leifsstöð í hverskonar samanburði. Enda þarf stór hús til að hýsa margt fólk, breiðar þurfa gáttirnar að vera svo samgöngurnar séu greiðar. Einu lestarfyrirtækjanna hér telst svo til að það þjóni daglega um 16 milljónum manna. Það verður að viðurkennast að hjartsláttur Tókýó er aðeins kraftmeiri en hjartsláttur Reykjavíkur enda er æðanetið hér í það minnsta ögn burðugra.

Ég tek eftir því að þeir sem eru vanari mannmergð geta leyft sér að velta því fyrir sér hvar þeir eru án þess að velta því nokkuð fyrir sér hvort það sé eitthvert fólk að flækjast fyrir þeim. Það er auðvelt að gleyma stað og stund á svipstundu og fylgja fjöldanum, í líkingu við stefnulaust rekald í stjórnmálum. Þá skiptir öllu að vita hvaðan maður kemur og hvert maður ætlar sér, annars getur maður ekki spyrnt niður fæti og farið sína leið. Heldur fylgir maður sviplausum fjöldanum, hvert veit enginn. Þá fer ég frekar fetið á móti straumnum en að fljóta með honum.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá er það í algerum undantekningartilfellum að fólk komist ekki út úr lestum í Tókýó á sínum áfanga stað. Þannig að jafnvel eftir nokkra eftirgrennslan virðist það vera sem svo að meiri hætta sé á því að missa af höfn á siglingaleið Norrænu en að komast ekki út úr mannþröng í yfirfullum lestum í Tókýó. Þó menn troði sér kannski inn í lestirnar víkja menn greiðlega fyrir þeim sem þurfa að komast út. Kurteisin og tillitssemin er mikil hér um slóðir.

Maður er tæpast búinn að átta sig á því að andrými hafi skapast, við það að sleppa út úr lestarvagninum, fyrr en í flasið á manni berast ýmiskonar tilkynningar. Tilkynningunum og auglýsingunum er dreift af jafnmiklum móð og örvæntingarfullu r frambjóðandi í kosningum eigi persónulega hlut að máli. Það tekur ekki langan tíma að fylla alla vasa við það eitt að ganga út af járnbrautastöðinni. Hverri auglýsingu sem dreift er með þessum hætti fylgir um tugur af litlum pappírsþurrkum. Auglýsingarnar eru margskonar, tilkynning um opnun nýrrar lágvöruverðs verslu nar, tilboð og eða afsláttur á hárgreiðslu eða klippingu, - ég skil ekkert í því að mér sé fengið þvíumlíkt nokkuð - nú eða tilboð á símaþjónustu svo nokkuð sé nefnt. Það er allskonar fólk sem stendur í þessum áróðri, meðan birgðir endast. Hefur verið brýnt fyrir mér að þó ég skili hvorki staf né tákn í tilkynningunum, þá sé ég hjálplegur við það fólk sem keppist um að koma út áróðrinum án þess að skeyta nokkru um hvort viðtakandinn skilji nokkuð, taki ég mitt eintak. Þannig geti dreifingaraðilarnir fyrr lokið sínu dagsverki og "allir" eru ánægðir. Það er allskonar fólk sem stundar þessa iðju spjátrungslegir unglingar sem og vel til haft fólk á besta aldri. Það er ekki að sjá að boðskapurinn sé endilega merkilegri eftir því sem dreifingaraðilinn er betur klæddur.

Svo kemur maður við í kjörbúðinni eða hjá kaupmanninum á horninu og ljósritar nokkrar blaðsíður eða sendir símbréf og kaupir sér japanskan skyndibita, þ.e. fylltan hrísgrjónaþríhyrning, hrísgrjónarúllu eða hrísgrjónabolta, sem er haldið saman af sjávargróðri og geymir fleira góðgæti en hrísgrjónin ein, það gætu verið hrogn eða hrár túnfiskur sem ég mun smjatta á í kvöld, japönsku námið hefur ekki enn geta komið því til leiða að ég viti hvað ég sitji ofan í mig. Heldur gildir það eitt að velja þann rétt á matseðlinum sem virðist hafa Japanskasta nafnið. Ég læt það duga að sé það matur fyrir Japani þá er það matur fyrir mig, ég treysti því að það sem er í kælinum er ætt.

Sinn er siður í hverju landi. Gestum er yfirleitt hollara en ekki að venjast og jafnvel taka upp þá hegðun er tíðkast á hverjum stað, sérstaklega ef ætlunin er að tjalda til lengri tíma en einnar nætur. Nú er á enda runnin ekki mesta ferðahelgi sumarsins heldur ein mesta ferðavika ársins í Japan. Gyllta vikan, sú sem almenningur sér baðaða gylltum ljóma langt fram í tíman, er eitthvert það lengsta frí sem Japanir fá frá daglegu amstri. Það er nokkur tilhneiging meðal vinnuveitenda að gefa starfsmönnum auka orlofsdag milli lögboðinna frídaga um mánaðarmótin apríl/maí. Fyrst ber að nefna 29. apríl, græna daginn, það er ekki vinstri grænn dagur heldur er það umhverfisvænn dagur. Áður fyrr héldu Japanir upp á afmæli Hans Hátignar Hitohito 29. apríl en eftir andlát hans varð dagurinn tileinkaður umhverfinu. Næstur í röðinni er 3. maí, sá dagur sem Japanir minnast gildistöku stjórnarskrárinnar. Loks er 5. maí drengjadagurinn, brúðudagurinn sem er tileinkaður stúlkum er í mars. Fjórði maí er dæmi um dag sem er almennur frídagur vegna meðfylgjandi frídaga, stjórnarskrá og drengja.

Til að njóta kyrrðar í fríinu var vissara að leggja snemma af stað og fara langt. Kyuushuu varð fyrir valinu og þar fékk ég svo sannarlega að
njóta gestrisni Kuhara fjölskyldunnar. Þar var á ferðum vel útilátið fóður hvort tveggja fyrir sál og líkama. Smávegis fræðsla um aðgangshindranir í hrísgrjónarækt að ógleymdri umræðu um siðaskiptin í Evrópu. Reyndar hef ég löngum horft á hafið og hugsað til þess sem þar býr . Engu að síður endaði ég merktur einkareknum bændaskóla þrammandi í þriðja maí göngu með því sem næst sundur bitna tunga af ótta við að misstíga mig og tapa þar með takti handahreyfinganna. En þarna í Fukuoka var margt um manninn í gleðskapnum, þó að örlítil væta læki niður á mannskapinn þ.á.m. glaðbeittir bændur að lofsyngja ágæti eigin framleiðslu, mismálaðar heldri frúr að fremja forna gjörninga, bardagalistamenn og stúlkur að stæla skærustu poppstjörnurnar. Í raun og veru var skrúðgangan atarna einungis lokahnykkur  heljar mikillar dagskrár sem fram fór á þremur sýningarstöðum, einum inni í verslunarmiðstöð, öðrum í garði hofs helguðu Búdda og þeim þriðja við lestarstöð. Maður þurfti að vanda sig þó engir væru dómararnir, félagar mínir á sviðinu fengu fjöldann til að syngja með, ég get seint sagst hafa átt þátt í því. Það var engin leið að koma sér úr þessari klípu - að hlunkast þögull um sviðið - önnur en sú sem leiddi mig þangað, að brosa.

Aðfinnslur vegna einhæfsmálfars